Tilgangur Uppbyggingarsjóðs Austurlands er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Austurlandi í samræmi við samning um sóknaráætlun landshlutans. Uppbyggingarsjóður Austurlands er samkeppnissjóður. Auglýst er opinberlega eftir umsóknum og þær metnar út frá markmiðum og áherslum sem fram koma í Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019 og eftir reglum þessum.
Auglýsa skal eftir umsóknum og úthluta að lágmarki einu sinni á ári. Miða skal við að á hverju ári sé úthlutað öllu fjármagni sjóðsins. Birta skal opinberlega lista yfir þau verkefni sem hljóta stuðning frá sjóðnum, upphæð fjárstuðnings og heildarkostnað verkefnis.
Umsóknarfrestur fyrir 2019 er til kl. 12:00 á hádegi þann 30. nóvember 2018. Opnað verður fyrir umsóknir úr Uppbyggingarsjóði Austurlands á rafrænni upplýsingagátt á heimasíðu Austurbrúar fimmtudaginn 1. nóvember kl. 12:00 á hádegi www.austurbru.is eða á https://soknaraaetlun.is/. Þaðan fara umsækjendur í gegnum innskráningu með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Mikilvægt er að sækja um í nafni verkefnisins/stofnunar en ekki á einkakennitölu verkefnastjóra.
- Áhersla Uppbyggingarsjóðs Austurlands fyrir árið 2019 er matur og matarmenning. Sérstaklega verður tekið tillit til umsókna þar sem matarauður, saga matvælaframleiðslu og hefðir ásamt nýtingu staðbundins hráefnis yrði notað til verðmætasköpunar í matarferðaþjónustu, vöruþróun og ímyndaruppbyggingu Austurlands. Leiðarljósið við mat á umsóknum verður m.a. sjálfbær framreiðsla og minnkun matarsóunar í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
1. Umsóknir skulu vera á eyðublöðum/sniðmáti Uppbyggingarsjóðs Austurlands. Þeim skal skilað með rafrænum hætti skv. leiðbeiningum á umsóknareyðublaði. Umsókn skal vera vel unnin og skýr og með raunhæfri verk- og kostnaðaráætlun. Úthlutunarnefnd er heimilt að hafna umsókn teljist hún ekki útfyllt á fullnægjandi hátt og hún er þá ekki tekin til efnislegrar meðferðar.
2. Þeir sem geta sótt um í Uppbyggingarsjóð Austurlands eru: lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir sem eru með lögheimili á Austurlandi eða hafa sterka tengingu við landshlutann. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum.
3. Umsækjandi um stofn- eða rekstrarstyrki til menningar og lista verður að vera lögaðili.
4. Umsækjandi skal sýna fram á að minnsta kosti 50% mótframlag á móti styrk sjóðsins. Gera þarf skýra grein fyrir því hvers eðlis mótframlagið er, þ.e. vinnuframlag, fjármagn eða annað.
5. Með umsókn skal fylgja staðfesting á mótframlagi og þátttöku annarra aðila í verkefninu.
6. Umsækjanda er heitið trúnaði varðandi umsókn en birtur verður opinberlega listi yfir styrkþega, heiti verkefna, styrkupphæðir og heildarkostnað.
7. Umsækjandi skal hafa gengið frá áfanga- og/eða lokaskýrslu vegna fyrri styrks áður en sótt er um nýjan styrk, hvort heldur er til framhaldsverkefnis eða nýs verkefnis.
8. Verkefni eða sá hluti verkefnis sem styrktur er skal að jafnaði ekki standa yfir lengur en í eitt ár. Sé um að ræða langtímaverkefni skal gera grein fyrir áföngum í verkefninu og óska einungis eftir styrk fyrir þeim hluta sem áætlað er að ljúka innan 12 mánaða frá undirskrift samnings um styrkveitinguna.
9. Umsækjandi ábyrgist að fullnægjandi leyfi séu fyrir framkvæmd verkefnis og notkun heimilda ef þarf sem og öðrum þáttum verkefnis.
10. Þegar úthlutun hefur verið kunngjörð er um að ræða endanlega niðurstöðu. Ekki er hægt að fara fram á endurmat á einstökum umsóknum.
11. Uppbyggingarsjóður gerir samning við styrkþega áður en greiðslur hefjast. Í honum skal koma fram ef fyrirsjáanlegar eru breytingar á verkefninu, t.d. vegna minna fjármagns en umsókn gerði ráð fyrir. Styrkir greiðast út eftir skilmálum samningsins og framvindu verkefnis. Lokagreiðsla er ekki greidd fyrr en skilað hefur verið lokaskýrslu.
a. Styrkir sem eru lægri en ein milljón króna: Styrkur er greiddur í tvennu lagi. Helmingurinn (50%) er greiddur þegar samningur hefur verið undirritaður. Seinni helmingurinn er greiddur þegar verkefni er lokið og styrkhafi hefur skilað fullnægjandi lokaskýrslu með afritum af reikningum fyrir útlögðum kostnaði.
b. Styrkir sem eru hærri en ein milljón króna: Við undirritun samnings eru greidd 30% af styrkupphæð. Við skil framvinduskýrslu eru greidd 40%. Lokagreiðsla (30%) fer fram að verkefni loknu þegar styrkhafi hefur skilað fullnægjandi lokaskýrslu með afritum af reikningum fyrir útlögðum kostnaði.
12. Í lokaskýrslu þurfa að koma fram upplýsingar um framvindu og árangur borið saman við áætlanir í umsókninni og skilmála samnings. Gera þarf grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á verkefninu, t.a.m. ef styrkur Uppbyggingarsjóðs Austurlands eða önnur fjármögnun hefur ekki verið í samræmi við áætlun. Við mat á framvindu og árangri verkefnis á grundvelli lokaskýrslu er tekið tillit til slíkra breytinga og getur úthlutunarnefnd tekið ákvörðun um að greiða ekki lokagreiðslu ef verulegar breytingar hafa orðið á verkefninu frá framlagðri umsókn og undirritun samnings. Áríðandi er að styrkþegar beri fyrirsjáanlegar breytingar á verkefni undir verkefnisstjóra og eða úthlutunarnefnd áður en til þeirra kemur.
13. Ef styrktu verkefni lýkur ekki innan 12 mánaða frá undirritun samnings og fyrstu greiðslu skal styrkþegi endurgreiða Uppbyggingarsjóði styrkinn ellegar leggja fram ítarlegar skýringar á því hvers vegna verkefnið hefur tafist. Úthlutunarnefnd tekur slíkar greinargerðir til afgreiðslu.
14. Við mat á umsóknum er m.a. tekið mið af eftirfarandi þáttum:
• Eru útfylling umsóknar og verkefnislýsing fullnægjandi?
• Skilar verkefnið samfélagslegri uppbyggingu í landshlutanum?
• Er verkefnið samstarfsverkefni?
• Stuðlar verkefnið að atvinnuuppbyggingu?
• Stuðlar verkefnið að nýsköpun í landshlutanum?
• Er kostnaðaráætlun og áætlun um fjármögnun fullnægjandi?
• Er verk- og tímaáætlun skýr og framkvæmd verkefnis innan árs?
• Er verkefnið atvinnuskapandi á Austurlandi?
15. Með umsókn í Uppbyggingarsjóð staðfestir umsækjandi, með vísan til reglugerðar ESB nr. 1407/2013 um minniháttar aðstoð (de minimis aid), að opinber stuðningur vegna verkefnisins fer ekki yfir 200.000 evrur samanlagt, að meðtöldum þeim stuðningi sem sótt er um, á tveimur næstliðnum reikningsárum og yfirstandandi reikningsári.
Áherslur Uppbyggingarsjóðs Austurlands
1. Sóknaráætlun. Verkefnið þarf að stuðla að framgangi Sóknaráætlunar Austurlands.
2. Samstarf. Æskilegt er að fleiri en tveir þátttakendur standi að baki umsókn (samstarfsaðilar) en mikilvægt er að fram komi hvernig samstarfið muni gagnast verkefninu. Þetta á þó ekki við um minni menningarverkefni. Samstarf við háskóla, rannsókna- og fræðastofnanir eða menningarmiðstöðvar og -stofnanir skal teljast umsóknum til tekna.
3. Trúverðug áætlun. Er verk- og kostnaðaráætlun, sem tilgreinir verktíma, gjöld og tekjur, trúverðug og raunsæ?
4. Vaxtarmöguleikar. Styrkir verkefnið grunngerð samfélagsins og eflir fagleg vinnubrögð?
5. Atvinnuuppbygging. Stuðlar verkefnið að atvinnu- og nýsköpun í landshlutanum?
6. Mannauður. Mun verkefnið stuðla að því að nemar eða ungt fagfólk frá Austurlandi komi að því?
Styrkhæfur kostnaður
Uppbyggingarsjóður Austurlands tekur þátt í fjármögnun styrkhæfs kostnaðar. Styrkhæfur kostnaður skal koma fram í kostnaðaráætlun umsóknar og til hans teljast:
1. Laun og launatengd gjöld. Aðeins er tekinn til greina sá tími sem unninn er í verkefninu af umsækjanda eða samstarfsaðilum. Vinnuframlag miðast við útborguð laun að viðbættum launatengdum gjöldum. Ekki er heimilt að nota útseldan taxta til viðmiðunar við útreikning launa. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóð Austurlands er heimilt að gefa út viðmiðunartaxta. Tímaskýrslur skulu haldnar til að sýna fram á hvernig vinnu við verkefnið var háttað og getur verkefnisstjóri Uppbyggingarsjóðs krafist skila á þeim.
2. Ferða- og fundakostnaður. Gerð skal grein fyrir öllum ferðum, bæði erlendis og innanlands, hver sé tilgangur ferðanna, hvert verði farið og áætlun um ferðakostnað. Leitast skal við að velja sem ódýrastan og umhverfisvænastan ferðamáta.
3. Aðföng og búnaður. Lýsa þarf í umsókn hvers konar aðföng eru nauðsynleg fyrir verkefnið. Heimilt er að kaupa sérhæfðan búnað sem nauðsynlegur er fyrir framgang verkefnis en að jafnaði er almennur búnaður, s.s. skrifstofubúnaður, ekki styrkhæfur.
4. Aðkeypt þjónusta. Í umsókn skal skilgreina aðkeypta þjónustu (t.d. verktakagreiðslur) og af hverjum þjónustan er keypt. Gera á grein fyrir hvað felst í aðkeyptri þjónustu eða ráðgjöf, hvað hún muni kosta, hver sé skilgreindur afrakstur og hverjir afgreiðsluskilmálar verða. Vinna umsækjanda eða samstarfsaðila fellur ekki undir aðkeypta þjónustu.
5. Stofn- og rekstrarstyrkir til menningar- og listastarfsemi sem ekki hefur aðgang að öðrum opinberu fjármagni.
Uppbyggingarsjóður fjármagnar ekki:
1. Fjárfestingar í fyrirtækjum, kaup á lóðum eða húsnæði.
2. Skráningu menningarminja, starfsemi íþróttafélaga, bæjarhátíðir eða almennar samkomur (sbr. tónleika og sýningar án skilgreindrar sérstöðu), almennt safnaðarstarf og hefðbundið menningarstarf innan skóla.
3. Grunnrannsóknir sem eiga aðgang að öðrum opinberum sjóðum.
4. Kostnað sem fallið hefur til áður en umsókn er afgreidd.
5. Stofn- og rekstrarstyrkir til þeirra sem lögum samkvæmt eiga rétt á slíkum styrkjum úr öðrum opinberum sjóðum, s.s. minjasöfn og stofnanir með samninga við ríkið.
Úthlutunarreglur þessar skulu endurskoðaðar árlega af úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Austurlands og samráðsvettvangi sóknaráætlunar og samþykktar af stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.