Mörk 12
765 Djúpivogur
Austurbrú og Opni háskólinn halda réttindanámskeið um merkingu vinnusvæða á Reyðarfirði 6. og 7. júní frá kl. 08:30 -16:30. Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist á námskeiðið. Til að tryggja sér pláss á námskeiðinu hvetjum við fólk til að skrá sig sem fyrst, síðasti skráningardagur er föstudaginn 31. maí.
Merking vinnusvæða er 16 klst. námskeið fyrir verkkaupa, hönnuði og eftirlitsmenn sem á einn eða annan hátt koma að undirbúningi og framkvæmd vega- og gatnagerðarmannvirkja.
Árið 2009 kom út reglugerð nr. 492/2009 með stoð í Umferðarlögum um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir vegna framkvæmda á og við vegi. Þar var m.a. kveðið á um að Vegagerðinni væri falið að skrifa nánari reglur um útfærslu og framkvæmd vinnusvæðamerkinga. Í reglunum eru strangar kröfur um þekkingu og réttindi þeirra sem koma að þessum málum. Þar kemur fram að allir sem koma að þessum málum frá Vegagerðinni og Reykjavíkurborg og þeir verktakar, hönnuðir og eftirlitsmenn sem tengjast verkefnum á þeirra vegum þurfa að hafa sótt námskeiðið Merking vinnusvæða og lokið prófi eins og gerðar eru kröfur um í umræddum reglum.
Á námskeiðinu verður farið yfir eftirfarandi efnisþætti:
• Lög og reglugerðir, flokkun vega og gatna, umferðarmerki, flokkun og tegundir, umferðarstjórn.
• Vinnusvæðið, umgenginsreglur, framkvæmd, ábyrgð og eftirlit.
• Rammareglur um merkingar vinnusvæðis/framkvæmdasvæðis.
• Varnar- og merkingarbúnaður, ljósabúnaður, merkjavagnar, vinnutæki og öryggisbúnaður.
• Lagnavinna o.fl., leyfisskyldar framkvæmdir á vegsvæðum.
• Vinnustaðamerkingar á tveggja til sex akreina vegum og við staðbundna/hreyfanlega vinnu.
• Magntaka, kostnaðaráætlanir, gæðaúttektir og févíti.
Í lok námskeiðs þreyta þátttakendur próf til réttinda. Þeir þátttakendur sem standast prófið frá prófskírteini sem gildir í 5 ár. Þeir sem eru með skírteini eldra en 5 ára þurfa að endurnýja sín vorið 2022, en frá og með þeim tíma verður boðið upp á styttri endurmenntunarnámskeið.
Markmið námskeiðsins er að kenna nemendum hönnun og útfærslu á merkingu fyrir almenna umferð í dreifbýli og þéttbýli vegna framkvæmda, þannig að merkingar þessar séu samræmdar, bæði gagnvart starfsmönnum á vinnustað og vegfarendum.
Námskeiðið er ætlað þeim verkkaupum, hönnuðum, verktökum og eftirlitsmönnum sem á einn eða annan hátt koma að undirbúningi og framkvæmd vega- og gatnagerðarmannvirkja svo og öðrum þeim stofnunum og fyrirtækjum sem vinna að framkvæmdum á eða við vegsvæði.